Um Fjölís

Fjölís er hagsmunafélag sjö höfundaréttarsamtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð. Fjölís hefur einnig gert samninga við 30 erlend systursamtök í 28 þjóðríkjum um hagsmunagæslu vegna eftirgerðar erlendra verka. Fjölís gerir því leyfissamninga við innlenda notendur um slíka eftirgerð og úthlutar rétthöfum verkanna tekjunum. Fjölís hefur hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að fara með kollektífar heimildir til innheimtu tekna vegna slíkrar hagnýtingar og nær hún bæði til innlendra og erlendra rétthafa. Heimildina má finna í 15. gr. a höfundalaga nr. 73/1972, samþykktum fyrir Fjölís nr. 494/1985 auk reglna nr. 420/2012. Stjórn félagsins skipa fulltrúar allra aðildarsamtaka. Rétthafar sjálfir fara því með stjórn félagsins.  Fjölís, Barónsstíg 5, 101 Reykjavík Sími: 899-9961 Netfang: fjolis(hja)fjolis.is  Framkvæmdastjóri er Helga Sigrún Harðardóttir (helgasigrun(hja)fjolis.is)

frettirhn

   

Skv. samþykktum fyrir Fjölís nr. 494/1985, með áorðnum breytingum, getur sérhvert félag rétthafa, sem umboð hefur til að gera samninga fyrir félagsmenn sína um samþykki og skilyrði fyrir fjölföldun, sótt um aðild að Fjölís. Rétt til inngöngu í félagið eiga hagsmunasamtök og stofnanir sem réttmætt tilkall eiga til greiðslu fyrir ljósritun verndaðra verka að því skilyrði uppfylltu að um verulega hagsmuni sé að ræða.

Aðildarfélögin tilnefna einn aðalmann og annan til vara í fulltrúaráð Fjölíss. Fulltrúaráðið ákveður starf og stefnu Fjölíss, hefur eftirlit með starfsemi félagsins og velur stjórn þess. Stjórnin stýrir starfsemi félagsins og framkvæmdastjóri daglegri framkvæmdastjórn.

Arndís Þorgeirsdóttir, formaður, f.h. Blaðamannafélags Íslands

Friðbjörg Ingimarsdóttir, f.h. Hagþenkis 

Karl Ágúst Úlfsson, f.h. Rithöfundasambandsins

Egill Örn Jóhannsson f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda

Knútur Bruun, f.h. Myndstefs

Guðrún Björk Bjarnadóttir, f.h. STEFs 

Björgvin Þ. Valdimarsson, f.h. Sítóns

Halldór Þ. Birgisson, formaður f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda

Ragnar Th. Sigurðsson, varaformaður, f.h. Myndstefs

Jón Yngvi Jóhannsson f.h. Hagþenkis

Hjálmar Jónsson f.h. Blaðamannafélags Íslands

Sindri Freysson f.h. Rithöfundasambands Íslands

Páll Ragnar Pálsson f.h. Stefs

Gylfi Garðarsson f.h. Sítóns.  

Ársreikningur 2017

Skýrsla stjórnar 2017-2018.

 

Höfundaréttur

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því. Eignarétturinn er þó takmarkaður þar sem hann helst í 70 ár eftir andlát höfundar. Eftir það fer hann í nokkurs konar almannaeigu (e. public domain). Höfundaréttur erfist skv. ákvæðum erfðalaga og fara erfingjar höfundar með þann rétt og geta notið ýmissa réttinda sem honum fylgja í 70 ár eftir andlát höfundar. 

Allt samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar og skiptir þá engu á hvern hátt og í hvaða formi verkið birtist. Höfundaréttur er ekki skráður sérstaklega hérlendis en verður til um leið og verk er komið í skynjunarhæft form.

Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu, sbr. 3. gr. höfundalaga. Þröng undantekning er á þessum einkarétti í 1. mgr. 11. gr. þar sem segir að heimilt sé að gera eintak/afrita verk en sú heimild nær eingöngu til einkanota sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi. Heimildin nær því ekki til neins konar eintakagerðar eða afritunar höfundaréttarvarins efnis sem nota á í atvinnuskyni. Hins vegar er unnt að gera heildarleyfissamning við viðurkennd samtök höfundaréttarfélaga eins og Fjölís, í þeim tilvikum þegar afritað er höfundaréttarvarið efni til notkunar í skólum, á vinnustöðum o.þ.h.  Eintakagerð með nýrri tækni fellur einnig undir einkarétt höfundar, sem hefur skv. því einn heimild til að gera eintök af verki sínu með nýrri tækni, s.s. að gefa verk út rafrænt sem áður hefur verið gefið út í bók.

Með eintakagerð er átt við hvers konar beina eða óbeina, tímabundna eða varanlega gerð eintaks af verki, í heild eða að hluta, með hvaða aðferðum og í hvaða formi sem er. Þannig er óheimilt að taka verk annars manns og gera nokkur konar eintak, afritun, eftirgerð, aðlögun eða þýðingu af því, nema með heimild höfundar. Í höfundalögum er þó gert ráð fyrir þröngum undantekningum á þessu, s.s. ef samið er um eintakagerð eða afritun verks skv. leyfissamningum við viðurkennd samtök eins og Fjölís.

Sæmdarréttur höfundar, sem getið er í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga er vernd fyrir því að verki höfundar sé breytt eða það birt með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.

Þýðingar og aðrar aðlaganir eru einnig háðar heimild höfundar. Óheimilt er, nema með samþykki höfundar, að þýða erlent efni og gefa út eða birta hérlendis. Sá sem þýðir eða aðlagar verk á höfundarétt að hinni breyttu mynd þess en sá réttur raskar þó ekki höfundarétti að frumverkinu. Útsetningar tónverka teljast þannig aðlögun á upprunalegu verki, sem og útfærslur fyrir aðra miðla, t.d. ef kvikmynd er byggð á bókmenntaverki. Sé upprunalegt verk hins vegar eingöngu notað sem fyrirmynd eða innblástur að nýju verki og efnistökin eru þannig að úr verður nýtt og sjálfstætt verk, öðlast hið nýja verk sjálfstæðan höfundarétt sem er óháður höfundarétti hins upprunalega verks.

Fjölís annast hagsmunagæslu fyrir meirihluta íslenskra höfunda og útgefenda skv. 26. gr. höfundalaga. Í því felst að Fjölís getur veitt leyfi, gegn sanngjörnu endurgjaldi, til afritunar og dreifingar höfundaréttarvarins efnis í starfsemi leyfishafa. Gegnum þátttöku í IFRRO (International Federation of Reproductions Rights Organizations) hefur Fjölís einnig gert samninga við 30 sambærileg systursamtök í 28 ríkjum vegna hagsmunagæslu fyrir erlenda rétthafa. Fjölís hefur því býsna víðtækt umboð, til samningsgerðar um afritun og dreifingu höfundaréttarvarins efnis, f. h. höfunda og annarra rétthafa bæði innlenda og erlenda.

Til að öðlast heimild til ljósritunar, skönnunar eða hvers konar hliðstæðrar afritunar eða eftirgerðar, umfram það sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr., er nauðsynlegt að fá samþykki rétthafa. Án slíks samþykkis er öll afritun ólögleg og er refsiverð skv. VII kafla höfundalaga. Ólögmæt afritun getur leitt til skaðabótaskyldu skv. 56. gr. sömu laga. Heildarleyfissamningar Fjölíss veita notendum heimild til að afrita og/eða gera eintök af verkum allflestra höfunda og spara þannig verulegt umstang við öflun réttinda. Eingöngu örfáar undantekningar eru á heildarefnisskránni. Sjá nánar um leyfissamninga hér.

Um heildarleyfissamninga

Heildarleyfissamningur er stundum kallaður samningskvöð (e. Extended Collective Licensing). Samningarnir eru einkum þekktir á Norðurlöndum og í raun var þeim komið á fót fyrst í Noregi.  Kerfið sem byggt er á, er kollektíft þannig að viðurkenndum innheimtusamtökum rétthafa er fengið umboð skv. lögum og samþykktum til að innheimta endurgjald vegna einhvers konar notkunar á höfundaréttarvörðu efni. Slík samtök gera svo gagnkvæmnisamninga við sambærileg samtök annarra ríkja. Umboðið nær til allra höfunda, óháð því hvort þeir hafa gengið í höfundaréttarsamtök eða ekki. Allir höfundar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Þá eiga utanfélagsmenn sama rétt og innanfélagsmenn til greiðslna, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun og geta sýnt fram á notkunina. Hin viðurkenndu innheimtusamtök úthluta svo tekjunum til aðildarsamtaka sinna. Um meðferð fjárins fer svo eftir samþykktum hverra aðildarsamtaka fyrir sig, enda rétthafanna að taka ákvörðun um ráðstöfun eigin tekna. Þannig hafa rétthafar innan aðildarfélaga Fjölíss mótað eigin reglur um úthlutun þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninga. Utanfélagsmenn eiga gjarnan aðgang að slíkum sjóðum á grundvelli umsókna sem uppfylla skilyrði sem sett hafa verið um stuðning við tiltekin verkefni. Samningsleyfið veitir leyfishafa lögmæta heimild til afritunar og dreifingar nánast alls höfundaréttarvarins efnis í starfsemi hans. Með því er fengið lögmætt aðgengi að afritun ýmis konar ítarefnis, viðbóta, efnis sem erfitt er að útvega, lítilla hluta af stærri verkum o.s.frv. Leyfið er þó háð takmörkunum og það er ekki hugsað til að koma í stað námsefniskaupa. Skólar á öllum skólastigum, stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga, Þjóðkirkjan og kórar eru meðal þeirra sem nýtt hafa sér hagræði heildarleyfa og greiða fyrir það sanngjarnt endurgjald. Samningskvaðaleyfi uppfylla ákvæði höfundalaga og alþjóðlegar skuldbindingar um meðferð höfundaréttar þar sem um er að ræða frjálsa samninga og hver og einn rétthafi getur hvenær sem er bannað fjölföldun verka sinna skv. leyfissamningunum. Það er á ábyrgð Fjölíss að tilkynna leyfishöfum um slíkt bann. Einkaréttur höfunda til eintakagerðar, sem getið er í 3. gr. sömu laga er því enn fyrir hendi.

Lítið hefur verið ritað um heildarleyfissamninga (e. extended collective licensing) á íslensku en hér má finna nokkrar fræðigreinar sem birtar hafa verið erlendis og á vefnum:

European Broadcasting Union: EXTENDED COLLECTIVE LICENSING – A valuable catalyst for the creative content economy in Europe. 

Thomas Riis og Jens Schovsbo: Extended Collective Licenses and the Nordic Experience – It´s a hybrid but is it a VOLVO or a Lemon?

Christian Rydning: Extended Collective Licenses – The Compatibility of the Nordic Solution with the International Conventions and EC Law

Johan Axhamn og Lucie Guibault: Cross-border extended collective licensing; a solution to online dessemination of Europe´s cultural heritage?

Það getur reynst erfitt og tímafrekt að hafa upp á einstökum höfundum og oft er það ómögulegt. Heildarleyfissamningar koma til móts við þarfir atvinnulífs, menntastarfs og annars konar starfsemi þar sem þeir veita heimild til ljósritunar, skönnunar og rafrænnar afritunar. Leyfin taka jafnt til verka höfunda sem eru félagar í aðildarfélögum Fjölíss og utanfélagsmanna. Þau taka einnig bæði til  íslenskra og erlendra höfunda skv. 26. gr. höfundalaga. Hver einstakur höfundur getur þó lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari grein laganna. Slík bönn eru hins vegar fátíð og heildarleyfissamningur veitir því heimild til að afrita margs konar efni af margs konar uppruna.

Fjölís byggir innheimtu sína á ákvæðum höfundalaga og umboðum höfundaréttarsamtaka. Úthlutun á innheimtum fjármunum byggir á sambærilegu kerfi og flest skandinavísk systursamtök notast við.  Þannig annast Fjölís heildarinnheimtu fyrir fjölföldun á verkum allra rétthafa og heildarúthlutun til aðildarfélaga og erlendra samningshafa. Sú úthlutun er í samræmi við efnisflokkun á því efni sem fjölfaldað er samkvæmt hverjum samningi og/eða samninga þar um. 

Rétthafar innan hverra aðildarsamtaka Fjölíss taka svo sjálfir ákvörðun um ráðstöfun þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninganna. Í sumum tilvikum er höfundum utan félaga einnig tryggður réttur til úthlutunar að því gefnu að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett eru um slíkt. 

Um frekari upplýsingar er vísað til aðildarfélaganna.

 

Vegna smæðar heildarmarkaðarins hérlendis fer ekki fram persónuleg úthlutun til höfunda, heldur er um að ræða sameiginlega innheimtu fyrir hönd allra höfunda og úthlutun til rétthafasamtaka þeirra. Ástæða þess er sú að kostnaður við upplýsingaöflun um afritun verka einstakra höfunda, myndi draga til sín megnið af tekjunum og lítið verða eftir fyrir rétthafana sjálfa. Eftir úthlutun Fjölíss til aðildarfélaga er fjármununum úthlutað til rétthafa eftir þeim reglum sem þeir setja sér í hverju félagi um sig. Í flestum tilvikum standa slíkir sjóðir utanfélagsmönnum opnir til jafns á við innanfélagsmenn.

Nánari upplýsingar veita aðildarfélög Fjölíss.

Afrita má og dreifa úr öllum útgefnum ritum, t.d. nótnaheftum, bókum, bæklingum, tímaritum og dagblöðum. Þá má einnig prenta efni af netinu í sama tilgangi. Öll afritun er með eftirfarandi takmörkunum:

• Aðeins má fjölfalda til viðbótar og fyllingar öðru efni. Leyfissamningum er t.d. ekki ætlað að koma í stað almennra námsbókakaupa.

• Aðeins má fjölfalda stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta, þó aldrei meira en 30 bls. (A4). Heimilt er þó að afrita einstaka bókakafla og tímaritsgreinar þó blaðsíðufjöldinn fari yfir 30 bls. hámarkið.

• Í hvert sinn sem fjölfaldað er þarf að koma fram á afritinu hver höfundur verksins sé, útgefandi, útgáfuár og útgáfustaður. Venjulega er titilsíða verks því afrituð og látin fylgja með.

Þá má einnig afrita höfundaréttarvarið efni af vefnum, búa þannig til rafrænt afrit og vista á innri vef viðkomandi leyfishafa.

• Ekki má fjölfalda rit, ef höfundur hefur bannað það

• Ekki má fjölfalda í stað útgefinna rita sem teljast aðgengileg

• Ekki má fjölfalda til að gefa út efni sem nýtur verndar

• Ekki má fjölfalda efni til dreifingar meðal almennings

• Áslaug Björgvinsdóttir. Félagaréttur,  1999, Bókaútgáfa Orators.

• Íslenskur söguatlas. 1989-1993, ritstjórar: Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. Almenna bókafélagið: Iðunn.

Allir starfsmenn viðkomandi skóla, fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka.

Heildarleyfissamningar

PDF útgáfa

Spurt og svarað um ljósritun í skólum

Af hverju leyfissamningur? Samningur milli menntamálaráðuneytisins og Fjölís um ljósritun og hliðstæða eftirgerð á höfundaréttarvörðu efni í skólastarfi gerir nemendum og kennurum í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum auk tónlistarskóla og símenntunarmiðstöðva kleift að afrita viðbótarnámsefni og ítarefni til notkunar í skólastarfi. Samningurinn nær til allra varinna verka, íslenskra og erlendra sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín. 

Eftirtaldir höfundar hafa bannað afritun eftirtalinna verka sinna: • Áslaug Björgvinsdóttir. Félagaréttur,  1999, Bókaútgáfa Orators. • Íslenskur söguatlas. 1989-1993, ritstjórar: Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. Almenna bókafélagið: Iðunn.

Gildistími. Samningur menntamálaráðuneytisins og Fjölís gildir til ársloka 2018.  

Notendur. Nemendur, kennarar og starfsfólk menntastofnana sem njóta opinbers rekstrarstuðnings. 

Hvað má ljósrita/afrita? Samningurinn tekur til hefðbundinnar ljósritunar, skönnunar, ljósmyndunar og hliðstæðrar eftirgerðar útgefinna verka s.s. bóka, tímarita, dagblaða, nótnahefta, landakorta, listaverka, ljósmynda, leiksviðsverka, skráa, taflna o.s.frv.  Ljósrita má stutta þætti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. úr hverju riti, fyrir hvern nemanda, á hverju skólaári. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Óheimilt er að ljósrita  fleiri en 30 bls. úr hverju einstöku riti á hverju skólaári eða námskeiði. Samningurinn nær til alls efnis sem afritað er í þágu kennslunnar/námsins.

Með hverju afrituðu verki skal fylgja áminning um höfundarétt sbr. eftirfarandi: Lesendur eru minntir á að um verk þetta gilda reglur höfundalaga. Utan þess sem höfundalög og samningur háskólanna við Fjölís heimilar er ekki leyfilegt að fjölfalda verk frekar, varðveita eða dreifa án samþykkis rétthafa verksins. Ennfremur er óheimilt að breyta verkinu á nokkurn hátt.

Efni sem kennarar/fyrirlesarar semja sjálfir. Fjölís er ekki kunnugt um að kennarar eða fyrirlesarar hafi með almennum samningum afsalað sér höfundarétti á efni sem þeir semja sjálfir til notkunar í kennslu, né heldur að afleiddur réttur höfundar skv. höfundalögum til að þiggja greiðslur fyrir afritun slíks efnis hafi með samningum verið færður til annarra s.s. vinnuveitanda.  Kennurum/fyrirlesurum er þó að sjálfsögðu heimilt að nota eigið efni og/eða heimila afritun þess án þess að krefjast gjalds fyrir. Fjölís lítur svo á að í þeim tilvikum þar sem kennarar/fyrirlesarar hafa ekki afsalað höfundarétti sínum og/eða rétti til greiðslu fyrir höfundaréttarvarið efni með kjarasamningum, frjálsum samningum og/eða sérstakri yfirlýsingu skuli telja efni sem kennarar/fyrirlesarar semja sjálfir til notkunar í kennslu með öðru útgefnu efni þegar horft er til gjaldskyldu. Þannig skuli greiðsla koma fyrir efni sem kennarar semja sjálfir, burtséð frá því hvort það er eingöngu notað af viðkomandi kennara eða fleirum. Greiðslur fyrir slíkt efni renna til Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna sem úthlutar styrkjum skv. reglum félagsins. Sjá www.hagthenkir.is

 

Í gildi eru samningar um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni í starfi endurmenntunarmiðstöðva og einkaskóla sem ekki heyra undir samning menntamálaráðuneytisins. Þar er um að ræða menntastofnanir sem innheimta námskeiðsgjöld. Samningarnir gera nemendum og kennurum kleift að ljósrita viðbótarnámsefni og ítarefni til notkunar í kennslu. Þeir ná yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín. Listi yfir verk þeirra höfunda sem bannað hafa ljósritun verka sinna er aðgengilegur hér. Samningar endurmenntunarmiðstöðva við Fjölís heimila eingöngu ljósritun af pappír yfir á pappír. Þeir veita ekki heimild til skönnunar, útprentunar af netinu eða annarar rafrænnar afritunar og/eða dreifingar. Samningarnir taka ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa. Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. á hverju skólaári. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Óheimilt er að ljósrita fleiri en 30 bls. úr hverju einstöku riti á hverju skólaári eða námskeiði. Samningurinn nær til alls efnis sem afritað er í þágu kennslunnar. Efni sem kennarar/fyrirlesarar semja sjálfir. Fjölís er ekki kunnugt um að kennarar eða fyrirlesarar hafi með almennum samningum afsalað sér höfundarétti á efni sem þeir semja sjálfir til notkunar í kennslu, né heldur að afleiddur réttur höfundar skv. höfundalögum til að þiggja greiðslur fyrir afritun slíks efnis hafi með samningum verið færður til annarra s.s. vinnuveitanda. Kennurum/fyrirlesurum er þó að sjálfsögðu heimilt að nota eigið efni og/eða heimila afritun þess án þess að krefjast gjalds fyrir. Fjölís lítur svo á að í þeim tilvikum þar sem kennarar/fyrirlesarar hafa ekki afsalað höfundarétti sínum og/eða rétti til greiðslu fyrir höfundaréttarvarið efni með kjarasamningum, frjálsum samningum og/eða sérstakri yfirlýsingu skuli telja efni sem kennarar/fyrirlesarar semja sjálfir til notkunar í kennslu með öðru útgefnu efni þegar horft er til gjaldskyldu. Þannig skuli greiðsla koma fyrir efni sem kennarar semja sjálfir, burtséð frá því hvort það er eingöngu notað af viðkomandi kennara eða fleirum. Greiðslur fyrir slíkt efni renna til Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna sem úthlutar styrkjum skv. reglum félagsins. Sjá www.hagthenkir.is

Fjölís hefur gildan samning við eftirfarandi símenntunarmiðstöðvar og einkaskóla. 

1. Endurmenntun Háskóla Íslands

2. Námsflokkar Hafnarfjarðar 

3. Námsflokkar Reykjavíkur 

4. Sumarskóli FB 

5. Iðan 

6. Biblíuskólinn 

Samningur um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni í starfi þjóðkirkjunnar nær yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín. 

Samningurinn heimilar ljósritun, skönnun og hliðstæða eftirgerð. Hann tekur ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa.

Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls.
Samningurinn nær til alls starfs sem unnið er innan þjóðkirkjunnar.

Samningur um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni í starfi kóra nær yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín.  Samningar íslenskra kóra við Fjölís heimila alla jafna eingöngu ljósritun af pappír yfir á pappír. Hafin er vinna við endurnýjun samninga sem innihalda skönnun og rafræna dreifingu. Samningarnir taka ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa. Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Óheimilt er að ljósrita fleiri en 30 bls. úr hverju einstöku riti á hverju ári. Eingöngu kórum sem hafa gildan samning við Fjölís er heimilt að afrita nótur í starfi sínu.

Kórar sem hafa gilda samninga við Fjölís:

Kvennakór Reykjavíkur

Kvennakórinn Vox Feminae

Kvennakór Hafnarfjarðar

Freyjukórinn Borgarfirði

Kvennakór Garðabæjar

Kvennakór Kópavogs

Kvennakór Suðurnesja

Kvennakórinn Ljósbrá

Kvennakórinn Norðurljós

Kvennakórinn Ymur

Kyrjurnar

Kvennakór Hornafjarðar

Karlakórinn Fóstbræður (undirrit. samningur um rafræna afritun og dreifingu)

Karlakórinn Heimir (undirrit. samningur um rafræna afritun og dreifingu)

Karlakór Dalvíkur

Karlakór Reykjavíkur

Karlakór Bólstaðahlíðarhrepps

Karlakórinn Drífandi

Karlakór Akureyrar, Geysir

Karlakórinn Hreimur

Karlakórinn Þrestir

Karlakórinn Jökull

Karlakórinn Stefnir

Karlakór Eyjafjarðar

Karlakór Keflavíkur

Hvers kyns afritun höfundaréttarvarins efnis í starfsemi annarra kóra en hér að ofan greinir er óheimil og skaðabótaskyld, fari hún fram. 

Samningur um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni voru endurnýjaðir skv. rammasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga á árinu 2017. Samningarnir ná til allrar afritunar á höfundaréttarvörðu efni í starfi sveitarfélaga og nær yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín. 

Með starfi sveitarfélaga er átt við alla stjórnsýslu og rekstur stofnana/fyrirtækja og/eða annan rekstur. Rekstur grunnskóla er þar undanskilinn þar sem sérstakur samningur er í gildi milli menntamálaráðuneytisins og Fjölís um ljósritun og hliðstæða eftirgerð í skólum.

Samningar sveitarfélaga við Fjölís heimila, auk hefðbundinnar ljósritunar, skönnun, útprentun af netinu og annars konar rafrænna afritun og/eða dreifingu.  Samningarnir taka ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa. 

Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Samningurinn nær til alls efnis sem afritað er í þágu reksturs sveitarfélagsins.

 

Rétthafar

Rétthafar utan aðildarfélaga Fjölíss geta notið réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna eins og félagsmenn, eigi þeir réttmætt tilkall til greiðslu fyrir fjölföldun verndaðra rita. Rétthafar sem standa utan höfundaréttarsamtaka og telja sig eiga slíkt tilkall geta því snúið sér til Fjölíss með slíka kröfu. Skilyrði er að sýnt sér fram á raunverulega notkun og umfang. Þá geta utanfélagsmenn í mörgum tilvikum sótt um styrki til aðildarfélaga Fjölíss vegna vinnslu verkefna sem falla að þeim skilyrðum sem sett eru um styrkveitingar.

Heimild Fjölíss til samningsgerðar f.h. rétthafa er bundin í lög, sbr. 26. gr.  höfundalaga. Til að fylgja henni eftir hefur Fjölís gert gagnkvæmnisamninga við 30 samtök í 28 þjóðríkjum um meðferð þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninga. Samtök erlendra rétthafa fá því sendar árlega greiðslur frá Fjölís í samræmi við samninga þar að lútandi.

Fjölís hefur gert gagnkvæmnisamninga við systursamtök í þessum ríkjum: Argentína, Ástralía, Bandaríkin, Belgía, Brasilía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Georgía, Grikkland, Holland, Hong Kong, Írland, Kanada (enskumælandi) Kanada (frönskumælandi), Suður- Kórea, Noregur, Nýja Sjáland, Rússland, Slóvakía, Spánn, Stóra-Bretland, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Víetnam, Zimbabwe, Þýskaland (nótur) Þýskaland (annað útgefið efni en nótur) Öll þessi systursamtök Fjölíss eru aðilar að alþjóðasamtökum höfundaréttarsamtaka, Ifrro (International Federation of Reproduction Rights Organisations)